Wannabe kartöflusalat

 

            FullSizeRender (1)Nú er sumarið komið og grillið er oftast notað mörgum sinnum í viku þessa dagana. Þegar ég grilla langar mig stundum í djúsí kartöflusalat. Vandinn er bara sá að þegar maður borðar helst bara lágkolvetna þá er ekki sniðugt að gúffa í sig fullt af kartöflum. 

Hvað gera bændur þá?

Ég rakst á uppskrift að blómkálssalati um daginn og er búin að vera að bíða (eftir sjálfri mér) eftir að fá að smakka. 

Þessi uppskrift sem ég fann leit bara svo vel út. 

Í gær lét ég svo verða af því. Fann reyndar ekki uppskriftina í símanum, sem ég hafði geymt í opnum glugga endalaust, og varð því að finna nýja. 

Þessi hérna uppskrift er pínu öðruvísi en þetta týpíska kartöflusalat en engu að síður er hún svakalega góð. 

Ég fann hana á þessari síðu:  juliepaabloggen.wordpress.com

Við borðuðum salatið í gær með grilluðum ostborgara. Mmmm ég vildi að ég gæti leyft ykkur að smakka hamborgarana sem maðurinn minn grillar. Þeir eru af öðrum heimi. Grillbragðið og uhhmm..      tongue-out

 

Wannabe kartöflusalat / eða bara Blómkálssalat

Fyrir ca 4

1,5 dl feitur sýrður rjómi eða feit grísk jógúrt

3 msk mæjónes (mér finnst Hellmanns best)

1/2 tsk salt og nýmalaður pipar

1 tsk Dijon sinnep

1 blómkál

1/2 gúrka

2 vorlaukar

100g frosnar eða ferskar ertur

 

  • Skerðu eða brjóttu blómkálsblómin af stilknum og hafðu ekki stykkin of stór. 
  • Settu blómkálið í léttsaltað sjóðandi vatn í ca 3-5 mínútur. Ef þú notar frosnar ertur settu þær þá með síðustu mínútuna. 
  • Sigtaðu og kældu svo blómkál og ertur í köldu (rennandi) vatni. Láttu svo vatnið renna vel af. 
  • Skerðu laukana (líka þetta græna) fínt og skerðu gúrkuna í litla bita. 
  • Blandaðu saman sýrða rjómanum, mæjó og sinnepinu og smakkaðu til með salti og pipar. 
  • Allt hrærist saman.
  • Salatið má borða strax en það er ennþá betra ef það fær að bíða.

 


Bloggfærslur 16. júní 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband